Viltu hitta SOS „barn“ frá Tíbet og Indlandi?
Fimmtudaginn 29. ágúst n.k. klukkan 17 gefst styrktaraðilum SOS á Íslandi og öðrum áhugasömum einstakt tækifæri á að hitta konu sem ólst upp í SOS barnaþorpi. SOS Barnaþorpin á Íslandi efna til viðburðar í salnum á veitingastaðnum Nauthóli þar sem Sonam Gangsang segir frá lífinu í barnaþorpinu og því sem við tók, menningunni, tengingu sinni við Ísland og fleiru ásamt því að svara spurningum úr sal. Sonam ólst upp í SOS barnaþorpi á Himalæja hásléttunni fyrir börn landflótta Tíbetbúa.
SOS barnaþorp eru ekki eins og margir halda.
- Hvernig er að alast upp í SOS barnaþorpi?
- Hvað varð til þess að hún flutti í SOS barnaþorp?
- Hvaða áhrif hafði það á framtíð hennar?
- Er munur á framtíðartækifærum drengja og stúlkna á Indlandi?
Þessum spurningum og fleirum fáum við svarað á viðburði okkar á Nauthóli.
Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir en mikilvægt er að skrá sig annað hvort á Facebook-síðu viðburðarins eða með því að senda tölvupóst á sos@sos.is.
Ingibjörg Steingrímsdóttir var SOS-foreldri Sonam og heimsótti hana árið 2008.
Þakkar stuðningi Ingibjargar frama sinn í dag
Sonam er ein af níu dætrum fátækra foreldra sinna sem flúðu Tíbet fótgangandi og settust að Indlandsmegin við landamærin í bænum Leh. Það bjargaði framtíð fjölskyldunnar að í bænum er SOS barnaþorp þar sem Sonam og systur hennar fengu gott heimili og fría skólagöngu.
Sonam átti SOS foreldri á Íslandi, Ingibjörgu Steingrímsdóttur, sem Sonam þakkar hversu langt hún hefur náð í lífinu í dag. Hún kláraði kennaramenntun og starfar nú í menntamálaráðuneyti Tíbeta í útlegð þar sem hún hefur yfirumsjón með lestrarkennslu yngstu bekkjanna í 45 skólum fyrir tíbetsk börn á Indlandi og í Nepal.
Við höfum áður fjallað ítarlega um Sonam og Ingibjörgu eins og sjá má hér: Úr fátækt til frama
Í umsjón Evu Ruzu
SOS foreldrar á Íslandi og aðrir áhugasamir eru velkomnir í Nauthól meðan húsrúm leyfir til að hitta Sonam, hlýða á frásögn hennar og spyrja hana spurninga.
Kynnir og stjórnandi verður Eva Ruza, velgjörðasendiherra SOS Barnaþorpanna á Íslandi og SOS foreldri til margra ára. Fyrir svörum sitja Sonam Gangang og Hans Steinar Bjarnason, upplýsingafulltrúi SOS á Íslandi.
Veitingasala verður á staðnum.
Við ítrekum mikilvægi þess að skrá sig á viðburðinn.
Nýlegar fréttir
855 krónur af hverju þúsund króna framlagi renna í hjálparstarfið
Ársskýrsla SOS Barnaþorpanna fyrir árið 2024 hefur nú verið birt eftir aðalfund samtakanna 19. maí sl. Þar kemur m.a. fram að hlutfall rekstrarkostnaðar er með því allra lægsta sem gerist eða aðeins 1...
23 milljónum króna af erfðagjöf ráðstafað til háskólamenntunar
SOS Barnaþorpin á Íslandi hafa ráðstafað 23 milljónum króna af erfðagjöf til háskólamenntunar ungmenna í Afríku, nánar tiltekið í Rúanda. Ráðstöfunin er samkvæmt óskum arfleifanda, Baldvins Leifssonar...